Frá árinu 1950 hafa Lögmenn Thorsplani þjónustað Hafnfirðinga og aðra landsmenn með góðum árangri, enda hefur stofan alla tíð notið þess að hafa þrautreynda og hæfa starfsmenn innanborðs.

Uppruninn

Lögmannsstofan á uppruna sinn í því er Guðjón Steingrímsson, þá nýútskrifaður lögfræðingur, setti skilti útí glugga á heimili sínu að Reykjavíkurvegi 3 í Hafnarfirði, þar sem hann bauð fram þjónustu sína sem lögmaður. Þetta var árið 1950 en þá var enginn starfandi lögmaður í Hafnarfirði. Guðjón rak uppfrá því lögmannsstofu sína í Hafnarfirði, undir eigin nafni. Guðjón veitti bæjarbúum alla almenna lögmannsþjónustu en að auki rak hann fasteignasölu og um tíma var hann umboðsmaður fyrir Almennar tryggingar.

Fljótlega eftir að hann opnaði stofuna fór hann að vinna fyrir Sparisjóð Hafnarfjarðar sem lögfræðilegur ráðgjafi auk þess sem hann annaðist löginnheimtu vanskilakrafna fyrir sjóðinn. Sinnti hann þessum störfum fyrir sparisjóðinn allt til dauðadags en hann féll frá árið 1988.

Thorsplanið

Við andlát Guðjóns tók Valgarður Sigurðsson hrl. við keflinu og árið 1990 gekk tengdasonur Guðjóns, Jón Auðunn Jónsson hrl., einnig til liðs við stofuna. Valgarður og Jón Auðunn ráku stofuna saman uppfrá því. Við flutning skrifstofunnar í nýbyggt húsið við Fjarðargötu 11 árið 1993 var ákveðið að breyta nafni stofunnar. Þar sem húsið stendur við Thorsplan, en segja má að það sé hjarta Hafnarfjarðarbæjar, varð fyrir valinu að nefna stofuna Lögmenn Thorsplani.

Er það von okkar að með því stuðlum við að viðhaldi þessa skemmtilega örnefnis hérna í miðbænum.

Stefán BJ. Gunnlaugsson hrl. gekk til liðs við stofuna árið 2006 en hann hafði þá um árabil rekið lögmannsstofu hér í bænum með Árna Grétari Finnssyni hrl. Eftir að Valgarður lét af störfum árið 2008 hafa Stefán og Jón Auðunn rekið stofuna í sameiningu.

Kjarninn í starfsemi Lögmanna Thorsplani

Ein af meginstoðunum í rekstri lögmannsstofunnar hefur alltaf verið innheimtuþjónusta, bæði fyrir fjármálafyrirtæki, önnur félög, jafnt stór sem smá, húsfélög og einstaklinga. Við þessi störf hefur stofan notið þess að hafa þrautreynda og hæfa starfsmenn. Má í því sambandi nefna að Sigrún Friðþjófsdóttir hóf hér störf árið 1985 og hefur hún unnið hér samfellt síðan. Hjördís Sigurðardóttir hóf störf á stofunni árið 1993 og hefur unnið hér samfellt síðan. Mikilvægi þess að búa að jafn þrautreyndum og góðum starfskröftum verður trauðla metið, enda verkefnin oft bæði erfið og flókin.

Þriðji lögfræðingurinn hóf hér störf í ársbyrjun 2013 en það er Dóris Ósk Guðjónsdóttir hdl. Hún hafði áður unnið sumarstörf á stofunni en öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi haustið 2014.